Opel Mokka-e Ultimate

Höfum tekið í notkun rafdrifna kennslubifreið í flokki B réttinda. Mokkan er sjálfskipt eins og allir rafbílar og því upplögð sem kennslubíll í fyrstu ökutímunum og/eða fyrir þá nemendur sem telja sig ekki hafa hag af því að læra á beinskiptan bíl, sem dæmi ef það er ekki beinskiptur bíll á heimilinu.

Í desember 2017 var gerð sú breyting á reglugerð um ökuskírteini að ökunemum er frjálst að velja hvort þeir taki próf á sjálfskipta eða beinskipta bifreið. Sé prófið tekið á sjálfskipta bifreið eru ökuréttindin takmörkuð við þannig bifreiðar. Takmörkunin kemur fram á ökuskírteininu og er tilgreind með tákntölunni 78. Hægt er að losna við þessa takmörkun síðar, sé þess óskað, en þá þarf að standast aksturshæfni á beinskipta bifreið. SVO EINFALT ER ÞAÐ.

Við teljum að innan örfárra ára verði allir innfluttir bílar eingöngu sjálfskiptir og því verður á endanum aðeins tekið próf á sjálfskipta bíla. Þess fyrir utan hvetjum við nemendur okkar til að byrja að læra á sjálfskiptan bíl á meðan viðkomandi nær tökum á umferðinni og umferðareglunum, ef æfingaaksturinn á að fara fram á beinskiptum bíl, er hægt að undirbúa nemandann undir það með nokkrum tímum á beinskiptum díselbíl sem einnig er notaður í verklega kennslu í flokki B réttinda.

Við mælum svo með því að nemendur taki ákvörðun um það í æfingaakstrinum hvort eigi að taka verklegt próf á sjálfskiptan eða beinskiptan bíl og verður þá seinni hluti ökunáms skipulagður út frá þeirri ákvörðun.

Hlökkum til að standa undir kröfum framtíðarinnar um umhverfisvænna ökunám :) Við erum klárlega full metnaðar þegar kemur að því..