Meirapróf - Aukin ökuréttindi

Ekill Ökuskóli er með nám fyrir öll helstu ökuréttindi er falla undir aukin ökuréttindi (betur þekkt sem meirapróf). Hægt er að taka mismunandi tegundir af réttindum til meiraprófs eftir því hvort viðkomandi sækist eftir að keyra leigubíl, stóran pallbíl eða lítin vörubíl, stóran vörubíl, litla rútu með minni en 16 farþegum eða stærri rútur.

Á ökuskírteini okkar eru þessi réttindi táknuð einum til tveimur bókstöfum og í einhverjum tifellum tölustöfum. Hver bókstafur táknar mismunandi tegund ökutækja: 

  • A - Bifhjól
  • B - Bifreið að hámarki 3.500 kg að heildarþyngd.
  • BFF - Réttindi til að aka fólks- / sendibifreið fyrir allt að 8 farþega í atvinnuskyni
  • C1 - Litlir vörubílar og stærri bifreiðir, svo sem pallbílar að hámarki 7.500 kg að heildarþyngd.  
  • C - Vörubílar sem þyngri eru en 7.500 kg að heildarþyngd. 
  • D1 - Hópbifreið fyrir 9 til 16 farþega
  • D - Hópbifreið fyrir fleiri en 16 farþega.
  • E - Eftirvagn. Hægt er að bæta við svokölluðum E réttindi á öll réttindin hér fyrir ofan að undanskildum A réttindum. Athugið að réttindin eru þó mismunandi eftir því hvort um BE, C1E/D1E eða CE/DE er að ræða og mælumst við til þess að lesið sé sérstaklega um hver og ein réttindi. 

Bóklegt nám 

Til þess að öðlast meiraprófsréttindi þarf að taka bóklegt námskeið áður en hægt er að hefja verklega kennslu. Bóklega námið skiptist í grunnnámskeið annarsvegar og framhaldsnámskeið hinsvegar. Grunnnámskeiðið er tvær vikur og þurfa allir að taka það óháð réttindum. Framhaldssnámskeiðið er einnig tvær vikur sem samanstendur af tveimur fögum sem kallast Stór ökutæki og Farþegaflutningar. Mismunandi er eftir réttindum hvað er nauðsynlegt að taka af framhaldsnámskeiðinu og er nánar farið út í það á undirsíðu viðkomandi ökuréttanda sem finna má í valmyndinni.

Hvenær er kennt?

Kennsla fer fram öll virk kvöld frá 17:30 - 21:45. Hlé eru milli faga svo hægt sé að fá sér að borða og til að teygja aðeins úr sé. 

Hvernig fer kennsla fram?

Kennslan fer fram í gegnum fjarkennslu að undanskildu einu kvöldi þar sem nemendur þurfa að mæta í verklega skyndihjálp. Sú kennsla fer alla jafna einungis fram á Akureyri og í Hafnarfirði og verða nemendur því að koma á þessa staði samkvæmt stundartöflu svo hægt sé að klára bóklega hluta námsins. 

Hvað þarf ég til að geta tekið þátt á fjarfundinum?

Við biðjum nemendur okkar að vera við tölvu eða snjalltæki sem inniheldur vefmyndavél og hljóðnema. Það gerum við til að geta staðfest að nemandinn sé til staðar að fylgjast með kennslunni. Ekki er heimilið að vera á ferðinni, svo sem í bíl, úti að ganga eða stunda aðra iðju á meðan námskeiðinu stendur. Verði nemandi uppvís að slíku getur kennari skráð fjarvist á viðkomandi nemanda fyrir þann tíma. 

Er mætingarskylda í bóklegu tímanna?

Nemandi þarf að sýna fram á 80% mætingu til þess að fá rétt til að taka bóklegt próf hjá Frumherja. 

Verklegt nám

Eftir að nemandinn hefur staðist svokallað ÖR próf hjá Frumherja og hann hefur setið alla kennslutíma má byrja verklega kennslu. Best er að hafa samband við okkur í Ekil Ökuskóla og fá upplýsingar um hvenær laust sé hjá ökukennara. Einnig má bóka verklega tíma í gegnum Noona kerfið eða með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Bóka verklega tíma