Meiraprófsnám í fjarfundi

Líkt og með staðarnámskeið Ekils fara einnig fram námskeið í fjarfundi. Námskeið sem haldin eru í fjarfundi eru sérstaklega auglýst á vefnum okkar undir Viðburðir á næstunni. Sé námskeið væntanlegt er hægt að skrá sig hvenær sem er. Skráning er ekki bindandi heldur fær nemandinn tölvupóst þegar nær dregur þar sem hann er beðinn um að staðfesta þátttöku sína.

Staðfesti nemandinn þátttöku sína fær hann sendan tölvupóst með tengli (til innskráningar í vafra) eða talnarunu og lykilorði (til innskráningar með smáforriti) til þess að tengjast inn á fundinn.

Til þess að geta tekið þátt í fjarfundi þarf nemandi að vera með tölvu eða snjalltæki sem inniheldur vefmyndavél og hljóðnema svo hægt sé að taka þátt í umræðum.

Sjá námskeið framundanSkráðu þig á næsta námskeið

Algengar spurningar

Hvaða fjarfundarkerfi er notað á fundinum?

Ekill notast við fjarfundarkerfið Zoom en hægt er að hlaða því niður í öll helstu snjalltæki sem og tölvuna. Eins býður kerfið upp á að tengjast í gegnum vafra.

Ef þú ert í vandræðum eða vilt sjá frekari upplýsingar um hvernig þú getur tengst fundinum mælum við með þessu myndbandi.

Kennslumyndband

Er mætingaskylda á námskeiðið?

Mætingaskylda hefur verið afnumin í fjarfundum. Ekill vill hinsvegar hvetja nemendur sem hafa skráð sig á fjarfundarnámskeið að mæta eftir fremsta megni og taka þátt í umræðum.

Þarf ég ekkert að mæta til ykkar fyrr en í ökutíma?

Nemendur þurfa að mæta til okkar í tæpar þrjár klukkustundir í verklega skyndihjálp. Misjafnt er hvenær skyndihjálpin fer fram en hún er auglýst í stundartöflu sem nemendur hafa aðgang að.
Að öðru leiti fer allt bóklegt nám fram í gegnum fjarfundarkerfi og vef Ekils.

Þarf ég að skrá nafnið mitt í fjarfundarkerfið?

Við óskum eftir að allir séu merktir með nafni. Þannig getur kennarinn betur átt í samskiptum við nemendann sem og að Ekill getur séð til baka þá kennslutíma sem nemandinn mætti í

Ef þú átt í vandræðum með að skrá eða breyta nafninu þínu má hér finna leiðbeiningar frá Zoom.

Eru tímarnir teknir upp og get ég horft á þá síðar?

Tímarnir eru alla jafna teknir upp ef samþykki allra sem sitja fundinn liggur fyrir. Við vekjum athygli að umræddar upptökur eru ekki aðgengilegar opinberlega heldur aðeins fyrir þá nemendur sem sitja námskeiðið hverju sinni.

Þarf ég að sækja um námsheimild fyrir fyrsta fjarfundinn?

Ekki er nauðsynlegt að sækja um heimildina fyrir fyrsta tímann. Við viljum hinsvegar undirstrika að því fyrr sem námsheimild er komin í gegn hjá Sýslumanni því betra er það fyrir nemandann.

Þegar nemandinn sækir um námsheimild hjá Sýslumanni þarf hann að skila inn heilbrigðisvottorði og mögulega nýrri mynd. Mikilvægt er að panta sér tíma hjá lækni og gefa upp að það sé vegna heilbrigðisvottorðs fyrir aukin ökuréttindi. Það getur tekið smá tíma og því gott að panta strax og ákvörðun er tekin um að taka þátt á meiraprófsnámskeiði.

Ökukennsla - Verklegir tímar

Eftir að nemendur hafa lokið við bóklega námskeiðið og staðist Öryggispróf hjá Frumherja (bóklega prófið) er hægt að hefja verklega tíma. Ekill Ökuskóli kennir verklega tíma á Akureyri (Ekill Ökuskóli Goðanes 10), í Hafnarfirði (Gjáhella 17).

Get ég fengið styrk fyrir náminu hjá stéttarfélaginu mínu?

Námið okkar er alla jafna styrkhæft hjá flestum stéttarfélögum. Til þess að fullvissa þig um það hvetjum við þig til að hafa samband við þitt stéttarfélag.

Athugið að stéttarfélög taka eingöngu við greiðslukvittunum þar sem sjá má staðfestar færslur/greiðslur frá íslenskum bankareikningi/greiðslukorti til viðkomandi fræðsluaðila. Sjóðurinn tekur ekki gildar greiðslukvittanir fyrir námi/námskeiðum sem greidd eru með peningum. Því er nóg að senda reikning frá ökuskólanum ásamt færslu út af bankareikningi - ekki er þörf á staðfestingu með stimpli frá skólanum.

Persónuvernd

Ekill Ökuskóli, fer eftir reglum Persónuverndar. Frétt á vef personuvernd.is frá 24.03.2020 þar sem Persónuvernd gefur út leiðbeiningar vegna fjarkennslu í skólum og hvað hafa ber í huga við nýtingu tæknilausna í fjarkennslu. Þær leiðbeinandi reglur sem eiga við í tilviki skólans eru eftirfarandi þættir.

  1. Nemendum og kennurum eru gefnar greinargóð upplýsingar um þau tæki og tæknilausnIr sem notast á við í kennslu.
  2. Ávallt skal gæta fyllstu varkárni við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, ekki sýst þegar nýttar eru stafrænar lausnir.
  3. Hvað varðar upptökur af kennslustundum og hvernig skuli bera sig að við þá lausn telur Persónuvernd að líta verði til þess lögbundna hlutverks skólanna að veita nemendum kennslu. Ekki verður séð að skólum sé fært að framfylgja því hlutverki sínu við núverandi aðstæður án þess að nýta tæknilausnir til fjarkennslu. Minnt er á nauðsyn þess að veita öllum hlutaðeigandi aðilum, svo sem kennurum, nemendum og forráðamönnum þeirra, viðeigandi fræðslu, m.a. um að tiltekin kennslustund eða viðburður séu tekin upp og upptakan varðveitt, eftir atvikum. Ef varðveita á upptökur þarf að huga að því hvort þær falli undir reglur um rafræna vöktun, en rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega. Loks þarf að gæta að öryggi upplýsinganna í hvívetna, t.a.m. að þær séu ekki gerðar aðgengilegar óviðkomandi.

Ekill Ökuskóli mun ávalt láta nemendur vita og óska eftir samþykki þeirra fyrir því að kennslustund sé tekin upp. Nemendur sem taka þátt í námskeiðinu eru þeir einu, að undanskyldum eftirlitsaðilum (Samgöngustofu, Persónuvernd) sem gætu fengið aðgang að upptöku á kennslustund sem þeir áður tóku þátt í. Eftir að námskeiði líkur er öllum upptökum, hafi þær á annað borð verið teknar upp, eytt úr gagnagrunni Ekils Ökuskóla.

Sem þátttakandi í fjarfundi, með kveikt á vefmyndavél og hljóði er viðkomandi að veita öðrum þátttakendum fjarfundar aðgang að sínu persónulega rými. Þátttakendur bera ábyrgð á því að takmarka það sem vefmyndavélin sýnir og vera siðlegir í háttalagi og klæðaburði.