Kynnum Sigurbjörgu Sól - ökukennara hjá Ekli

Sigurbjörg Sól Ólafsdóttir <3
Sigurbjörg Sól Ólafsdóttir <3

Við hjá Ekill ökukóla erum virkilega glöð að hafa fengið Sigurbjörgu Sól Ólafsdóttur í okkar hóp. Hún var fyrsti ökukennarinn okkar í Reykjavík sem sýndi okkur það traust að taka þátt í að byggja upp starfsemina sunnan heiða – og hefur staðið sig afburðavel frá fyrsta degi.

Fjölskyldan í forgangi – en pláss fyrir köku, prjón og Harrý

Fyrir utan starfið er Sigurbjörg fyrst og fremst eiginkona, móðir og amma. Fjölskyldan er hennar stoð og stytta – og góð kaka og notalegar stundir eru alltaf vel þegnar. Hún elskar ferðalög, hvort sem þau eru innanlands eða utan, og nýtur jafnt kyrrðar í göngutúr með hundinum Harrý og þess að sökkva sér í handavinnu.

Þegar gleði og alvara mætast

Það sem einkennir Sigurbjörgu er einstakt jafnvægi milli þolinmæði og húmors. Hún mætir nemendum sínum þar sem þeir eru staddir, með ró og skilning, en notar jafnframt léttleika og hlátur til að gera ökunámið skemmtilegra. Þessi blanda hefur reynst afar árangursrík – bæði til að skapa öryggi og til að brjóta niður spennu sem oft fylgir fyrstu ökutímunum.

Tónlistin tæki til heilunar eftir daginn

Það fer svolítið eftir dögum hvað tónlist Sigurbjörg leitar í  – stundum er gott að fá útrás og þá fær Dimma eða Skálmöld að hljóma, og hún tekur létt rokk-slamm í eldhúsinu um leið og hún hristir af sér daginn. Aðra daga er nauðsynlegt að tóna sig niður og þá þykir henni gott að setja Laufey á fóninn, eitthvað sem færir manni ró í sálina með mjúkum tónum og kaffibolla í hönd. Svo er Ren að koma mjög sterkur inn þessa dagana síðan fær Chinchilla að hljóma þegar hún þarf smá kraft, karakter og kvenlega badass orku. 

Það mætti segja að Sigurbjörg noti tónlistina sem spegil á sig sjálfa – stundum mjúk, stundum tryllt, en alltaf ekta.

Frá meiraprófi til ökukennslu

Árið 2007 tók Sigurbjörg meiraprófið og fann strax frelsi og gleði í akstrinum. Það varð upphafið að löngun hennar til að miðla áfram reynslu og þekkingu – og hefur síðan orðið að köllun hennar sem ökukennara. Hún segir sjálf að það sem heillar mest við starfið sé fjölbreytnin: enginn dagur er eins, hver nemandi er einstakur og hvert samtal skapar nýja sýn.

Minningar sem sitja eftir

Eitt ógleymanlegt augnablik í kennslu hennar var þegar nemandi, í sínum fyrsta tíma á vörubíl, fékk kvíðakast þegar lögreglan mætti á móti þeim. Með kvíðablöndnum hlátri af hálfri alvöru sagði hann: „Ég er ekki með réttindi til að keyra þetta!“ – og þá opnaðist gluggi á kjarnann í starfinu: að finna styrk og sjálfstraust smám saman.

,,Ég hef líka komist að því að ég nýt þess ótrúlega mikið að fylgjast með árangrinum – frá stressinu í fyrstu starti yfir í sigur­fagnaðinn þegar próf er staðið. Þá á ég til að brosa jafn breitt og nemandinn! Þannig hef ég lært að þolinmæði mín er meiri en ég hélt, glaðværðin smitast á milli og lífið er best þegar það rúllar áfram á hjólum með fjölbreyttum farþegum." 

Alltaf að læra og vaxa

Þó að starfið hafi verið stöðugt segir Sigurbjörg sjálf að hún hafi þroskast mikið sem einstaklingur í gegnum það. Hún lærir jafnt af samstarfsfólki og nemendum og telur mannlega þáttinn – samskipti, þolinmæði og leiðsögn – alltaf skipta mestu máli, sama hversu tæknin þróast.

,,Svo er það líka ómetanlegt að vera hluti af frábæru teymi hjá Ekill ökukóla. Andrúmsloftið, samheldnin og húmorinn sem fylgir samstarfinu gerir vinnuna bæði létta og gefandi. Þetta er svona blanda af góðu fólki, góðum tilgangi og góðum dögum – og það finnst mér dýrmæt."

Ráð til nýrra ökukennara

Hennar helsta ráð er einfalt: Þolinmæði er lykillinn. Með góðum undirbúningi og ró í hjarta verður kennslan bæði auðveldari og ánægjulegri fyrir alla.

Við erum ótrúlega stolt af að hafa Sigurbjörgu í okkar liði. Hún er ekki aðeins framúrskarandi ökukennari heldur líka hlý og skemmtileg manneskja sem lætur öllum í kringum sig líða betur. Nemendur fara frá henni öruggari og glaðari.