Á næstu dögum hefjast grunnskólar landsins á ný og þúsundir barna munu daglega leggja leið sína út í umferðina – gangandi, hjólandi eða í bílum foreldra.
Fyrstu vikur skólaársins eru viðkvæmur tími í umferðinni þar sem börn eru að aðlagast nýjum rútínum og mörg þeirra að stíga sín fyrstu skref sem sjálfstæðir þátttakendur í umferðinni. Það er því á ábyrgð okkar allra – foreldra, ökumanna og samfélagsins í heild – að tryggja öryggi þeirra.
Við höfum því tekið saman nokkra punkta varðandi umferðarvitund barna eftir aldri, til að fræða foreldra og ökumenn hvað ber að varast og hvernig er gott að mæta barninu á þeirra grundvelli svo þau læri á umhverfi sitt og umferðina.
- Leikskólabörn (2–5 ára)
Börn á þessum aldri skynja umhverfið á einfaldan hátt og hafa ekki þroska til að meta hraða eða fjarlægðir bíla. Þau geta brugðist snögglega við og hlaupið út á götu án fyrirvara. Eins eru þau það smávaxin að þau hverfa auðveldlega sjónum ökumanna. Því er mikilvægt að foreldrar haldi alltaf í hönd barnanna og kenni þeim grunnhugtök eins og:
- „Stöðva – horfa – hlusta.“
- Að fara alltaf yfir á gangbrautum og fylgja merkingum.
- Yngri grunnskólabörn (6–9 ára)
Börnin eru farin að læra umferða reglur og fylgja fyrirmælum en eiga enn erfitt með að átta sig á hraða bíla og hugsanlegum hættum sem af þeim stafa. Þau geta verið gleymnari þegar þau eru að tala við vini eða spennt að komast á áfangastað. Mikilvægt er að foreldrar endurtaki reglur reglulega, æfi leiðina í skólann með barninu og ræði við það um af hverju öryggisreglur skipta máli. Leikur barna á leiksvæðum í kringum skóla getur einkennst af miklum ærslagangi, sér í lagi þegar skemmtilegir snjóskaflar fara að myndast - þau átta sig alls ekki á hættunum sem geta myndast.
- Miðstig (10–12 ára)
Á þessum aldri fara mörg börn að ferðast sjálfstæðari leiðir. Þau hafa betri skilning á umferðinni en geta verið kærulaus, til dæmis á reiðhjóli eða rafhlaupahjóli. Þau þurfa að fá skýr skilaboð um notkun hjálms, endurskins og að fylgja umferðarreglum, t.d. að stöðva áður en þau fara yfir götu og bíða eftir grænu ljósi.
- Unglingar (13–15 ára)
Unglingar hafa almennt gott vit á umferð en eru stundum í símanum eða með heyrnartól, sem dregur úr athygli þeirra. Þau þurfa að fá áminningu um að vera vakandi í umferðinni, hugsa um fyrirmyndarhlutverk sitt gagnvart yngri börnum og muna að öryggi skiptir meira máli en hraði og samskipti í gegnum símtækið.
Ráð til foreldra
- Æfið reglulega leiðina í skólann með börnum ykkar. Bendið þeim á hvar þau þurfa að fara varlega í ykkar hverfi.
- Kennið þeim einföld lykilorð: „Stöðva – horfa – hlusta.“
- Notið endurskinsmerki óháð því hvort börnin séu gangandi eða hjólandi og ávalt skulu þau nota hjálm séu þau hjólandi eða á hlaupahjóli.
- Talið um að umferðin geti verið hættuleg og af hverju reglur eru mikilvægar.
Áminning til ökumanna
- Minnkið hraðann í hverfum, við skóla og leiksvæði.
- Reiknið alltaf með að börn geti tekið óvænta ákvörðun – hlaupið út á götu, snúið við eða fallið af hjóli.
- Stöðvið ávalt fyrir gangandi vegfarendum við gangbrautir.
- Forðist símanotkun og aðrar truflandi athafnir þegar ekið er, þá sérstaklega nálægt skóla og leiksvæðum.
- Sýnið þolinmæði - lífið liggur við.
Nú þegar skólar landsins hefjast er mikilvægt að við öll sýnum varkárni, ábyrgð og umhyggju í umferðinni. Börnin okkar eiga rétt á því að komast örugg í og úr skóla – og það er á okkar ábyrgð að tryggja það.