Nokkur nýmæli í umferðalögum sem taka gildi 1.janúar 2020

Um áramótin verða tekin í gildi ný umferðalög sem samþykkt voru á alþingi 25.júní 2019. Í þessum umferðalögum er tekið sérstaklega á notkun snjalltækja við akstur. Í lögum er snjalltæki skilgreint sem tæki með eða án farsímavirkni eða nettengingar, sem m.a. er hægt að nota til samskipta, skeytasendinga, leikja og/eða leiðsagnar. 

Stjórnanda ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta aksturinn, án handfrjáls búnaðar.

Hugtakið göngugata er skilgreint sem gata, aðallega ætluð gangandi vegfarendum og merkt sem slík. Umferð annarra ræðst af merkingum, dæmi um sérstaka merkingu er vegna losunar á vörum til veitingastaða og verslana.  Akstursþjónusta fatlaðra og hreyfihamlaðra, akstur lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga er heimil um merkta göngugötu. Ökumenn skulu aldrei aka hraðar en 10 km á klst. og sýna gangandi vegfarendum sérstaka tillitssemi og víkja. Hjólreiðamenn skulu einnig sýna sérstaka tillitsemi gangandi vegfarendum og ekki er heimilt að hjóla í göngugötu hraðar en á eðlilegum gönguhraða.

Bann við akstri gegn rauðu ljósi er í fyrsta sinn sett í lög, hingað til hefur það aðeins verið í reglugerð.

Akstur á hringtorgum er tekinn fyrir og sérstök ákvæði um akstur hingtorga lögfestur. Ökumaður á ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorgi á fyrstu gatnamótum. Óheimilt er að skipta um akrein við hring eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi. 

Alla eftirvagna vélknúinna ökutækja skal skrá óháð stærð.

Það hefur einnig verið fært í lög að bannað sé að henda sorpu úr ökutækjum, skilja eftir á vegi sorp eða annað sem óhreinkar vegi eða náttúru, jafnvel þó það hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur.

Fært hefur verið í lög að ökukennarar þurfi að stunda nám og standast próf í viðkomandi ökutækjaflokki en aðeins hefur verið kveðið á um það í reglugerð hingað til. Gerð er sú krafa að ökukennarar fullnægji kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Þá var sett í lög að heimild sé fyrir því að synja ökukennurum um starfsleyfi hafi þeir hlotið fóm fyrir kynferðisbrot. Ökukennarar þurfa að sækja um endurnýjun starfsleyfis á 5 ára fresti.